Vilhjálmsvöllur

Sumarið er tíminn þegar blómin springa út og trén og jörðin klæðast sínum fagurgræna skrúða. Það er líka árstíminn þar sem Héraðsbúar fara út og hreyfa sig en í miðju bæjarins er Vilhjálmsvöllur, kenndur við Vilhjálm Einarsson silfurhafa í þrístökki á Ólympíuleikunum 1956. Á vellinum spilar
knattspyrnulið Hattar heimaleiki sína en þar eru einnig hlaupabrautir klæddar gerviefni þannig að boðið er upp á úrvals frjálsíþróttastöðu.
Héraðshátíðin Ormsteiti leggur undir sig völlinn dag einn í ágúst þegar haldnir eru hverfaleikar. Hátíðin stendur annars í tíu daga og teygir anga sína um gervallt sveitarfélagið.
Á Fljótsdalshéraði hefur verið byggð upp úrvalsíþróttaaðstaða en akstursíþróttir, golf, skotíþróttir, hestaíþróttir, fimleikar, körfuknattleikur og fleiri íþróttir eru iðkaðar þar af miklum móð. Að hausti er haldin Hreyfivika sem vakið hefur athygli á heimsvísu fyrir veglega dagskrá og mikla samstöðu bæjarfélagsins.

Menningarmiðstöð og félagsheimili

Héraðsbúar eru duglegir að skemmta sér og sínum árið um kring. Gamla Sláturhúsið í miðbænum er menningarmiðstöð í dag og þar eru reglulegar sýningar á sígildum kvikmyndum, myndlist og vídeólist svo dæmi séu til tekin. Gamli frystiklefinn hýsir bæði tónleika og sýningar tilraunaleikhúsa. Í húsinu eru enn fremur vinnustofur hönnuða og annarra listamanna sem hafa gaman af að fá gesti í heimsókn.
Í félagsheimilið Valaskjálf eru sýndar leiksýningar, haldin skemmtikvöld, tónleikar og síðast en ekki síst gamaldags sveitaböll annað slagið.
Félagsheimilin í sveitunum í kring eru einnig nýtt undir margvíslega menningarviðburði heimamanna en þau lifna sannarlega við á þorranum. Mánuðina fyrir keppast menn við myrkranna á milli að semja bestu þorrablótsatriðin þar sem toppa þarf bæði blótið í næstu sveit og innansveitarblótið árið á undan.

Velkomin á hérað

Segja má að sérhvert hús á Fljótsdalshéraði sé menningarmiðstöð í sjálfu sér. Hvert sem litið er finnst hæfileikafólk sem tekur þér opnum örmum og fagnar því að fá þig í sitt lið. Héraðsbúar eru líka miklir útivistarkappar og merktar sem ómertkat gönguleiðir liggja um fjöll og dali. Á veturnar opna skíðasvæðin og troðnar eru brautir á túnum, í skógum og uppi á heiðum. Hérðasbúar taka hverri árstíð fagnandi og nýta sér það sem hún hefur upp á að bjóða.

X