Um svæðið

Um Múlaþing

Múlaþing er nýtt sameinað sveitarfélag fjögurra minni sveitarfélaga á Austurlandi; Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Við sameiningu varð til víðfeðmasta sveitarfélag  landsins,  um 10.671 ferkílómetrar að flatarmáli sem er rúm 10% af flatarmáli Íslands. Fjölbreytileiki svæðisins er því mikill, allt frá sjó og inn til jökla. 

Egilsstaðir og Fellabær mynda þéttbýliskjarnann á Héraði og íbúar á því svæði eru um 3.900. Lagarfljót er eitt helsta einkennistákn þess svæðisins og rennur það í gegnum allt Fljótsdalshérað frá jökli til sjávar. Í fljótinu býr hinn frægi Lagarfljótsormur. 

Náttúran – Héraðið hefur löngum verið rómað fyrir náttúrufegurð og gott veðurfar. Vaxandi skógar eiga sinn þátt í veðursældinni og hægt er að leita í skjól trjánna ef hafgolan gerist of nærgöngul. Hlý sumargolan minnir þá oft á meginland Evrópu og er stillt sumarkvöld í Hallormsstaðaskógi engu líkt. Óvíða á Íslandi er samspil hárra fossa, gróðurs, lygnra vatna og fjölskrúðugs dýralífs meira og eru fjölmargir staðir á svæðinu vel fallnir til útivistar.

Fólkið – Skapandi kraftur kemur upp í hugann þegar lýsa á samfélaginu. Áberandi er sú fjölbreytta hönnun og framleiðsla heimamanna sem fléttast skemmtilega inn í mannlífið. Dæmi um það eru “Austfirskar krásir – Matur úr héraði” sem er austfirskt gæðamerki á matvælum og eru þær vörur á boðstólnum á mörgum veitingahúsum svæðisins. Einnig má finna sérunnar vörur úr hráefni af Héraði, t.a.m. trjávið, ull, hreindýraskinni, hornum og beinum.

Hreyfing og útivist skipa stóran sess í hugum heimamanna og er fjölbreytilegt svæðið ákjósanlegt til að stundaútiveru bæði að sumri og vetri.

 

Þjónustan dregur að sér fjölda ferðamanna á sumrin en svæðið er einnig spennandi kostur að heimsækja yfir vetrartímann. Þjónustustigið er hátt og finnst það á viðmóti heimamanna sem leggja metnað sinn í að gera vel við þá sem nýta sér þá þjónustu sem er í boði. Úrval verslana og þjónustufyrirtækja er gott en mörg stórfyrirtæki eru með útibú staðsett á Egilsstöðum.

Austufirskar krásir og afþreying – Á svæðinu eru framúrskarandi veitingastaðir sem bjóða meðal annars upp á ferska gæðavöru úr heimabyggð. Góð hótel og gistihús eru á Héraði, tjaldstæði, orlofshús og bændagistingar. Ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á fjölbreyttar, skipulagðar ferðir alla mánuði ársins þar sem öll fjölskyldan getur fundið eitthvað við sitt hæfi

 

X