Snæfellsstofa
Snæfellsstofa
Afgreiðslutími 2020:
Athygli er vakin á því að aðstæður kunna að leiða til frekari breytinga á afgreiðslutíma. Þrátt fyrir skerta þjónustu í gestastofum er þjóðgarðurinn áfram opinn gestum.
Opið virka daga eftir 4. maí frá 10 – 15
Opið um helgar frá 16. maí frá 12-17
Júní / Júlí / Ágúst: Alla daga 9-17
September: Alla daga 10-16
Október: Alla daga 10-15
Á vetrartíma er opið eftir samkomulagi, þ.e. gestir geta haft samband með fyrirvara og verður þá reynt að bregðast við því.
Í Snæfellsstofu er sýningin Veraldarhjólið sem fjallar um hringrás og mótun náttúrunnar. Sýningin leggur áherslu á samspil gróðurfars og dýralífs á austursvæði þjóðgarðsins. Við hönnun hennar var lögð áhersla á að börn gætu snert, lyktað og prófað sig á ýmsum sýningarmunum. Gestastofa og upplýsingamiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs er Snæfellsstofa.
Minjagripaverslun er í gestastofunni með áherslu á vörur úr heimabyggð og nágrannasveitum þjóðgarðsins. Gestastofan er staðsett á Skriðuklaustri rétt sunnan við afleggjarann upp á Snæfellsöræfi. Aðgengi er fyrir fatlaða.
Vatnajökulsþjóðgarður
Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 2008. Hann nær yfir allan Vatnajökul og stór svæði í nágrenni hans, þar á meðal þjóðgarðana sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum. Þjóðgarðurinn spannar um 14% af flatarmáli Íslands og er stærsti þjóðgarður Vestur Evrópu.
Þjóðgarðar eru friðlýst svæði sem teljast sérstæð vegna náttúrufars eða sögulegrar helgi. Sérstaða Vatnajökulsþjóðgarðs felst einkum í fjölbreytilegum landslagsformum sem samspil eldvirkni, jarðhita, jökuls og vatnsfalla hafa skapað.
Vatnajökull
Vatnajökull er stærsti jökull Evrópu. Flatarmál hans er um 8.100 km2 og ísinn víðast 400–600 m þykkur en mest um 950 m. Undir jökulísnum leynast fjöll, dalir og hásléttur. Þar eru líka virkar megineldstöðvar. Bárðarbunga er stærst þeirra en Grímsvötn sú virkasta. Hæst nær jökulhettan rúma 2.000 m yfir sjó en jökulbotninn fer lægst 300 m niður fyrir sjávarmál. Að frátöldum Mýrdalsjökli er úrkoma hvergi meiri á Íslandi en á sunnanverðum Vatnajökli né afrennsli meira til sjávar. Svo mikill vatnsforði er bundinn í Vatnajökli að það tæki vatnsmestu á Íslands, Ölfusá, rúm 200 ár að bera hann fram.
Fjölbreytilegt landslag
Landslag umhverfis Vatnajökul er fjölbreytilegt. Norðan hans er háslétta afmörkuð af vatnsmiklum jökulám. Yfir henni gnæfa eldstöðvarnar Askja, Kverkfjöll og Snæfell og móbergsstapinn Herðubreið, drottning íslenskra fjalla. Í fyrndinni skáru mikil hamfarahlaup Jökulsárgljúfur í norðanverða hásléttuna. Efst í gljúfrunum dunar nú hinn kraftmikli Dettifoss en utar má finna formfagra Hljóðakletta og hamraskeifuna Ásbyrgi. Víðfeðm heiðalönd og votlendi einkenna svæðið við Snæfell næst jöklinum austanverðum. Þar eru mikilvæg búsvæði hreindýra og heiðagæsa.
Hæsti tindur landsins
Sunnan Vatnajökuls eru háir og tignarlegir fjallgarðar einkennandi og milli þeirra fellur fjöldi skriðjökla niður á láglendið. Syðst trónir megineldstöðin Öræfajökull og hæsti tindur landsins, Hvannadalshnjúkur. Í skjóli jökulsins er gróðurvinin Skaftafell og þar vestur af svartur Skeiðarársandur, sem tíð eldgos og jökulhlaup úr Grímsvötnum hafa skapað. Vestan Vatnajökuls einkennist landslag líka af mikilli eldvirkni. Þar urðu tvö af stærstu sprungu- og hraungosum jarðar á sögulegum tíma, Eldgjárgosið 934 og Skaftáreldar í Lakagígum 1783–1784. Norðvestan jökuls liggur Vonarskarð, litríkt háhitasvæði og vatnaskil Norður- og Suðurlands
Vefsíðu:
vatnajokulsthjodgardur.is/is/svaedin/snaefell-lonsoraefi/skipuleggja-heimsokn/snaefellsstofa
ADDITIONAL INFO
Heimilisfang:
Skriðuklaustur, 701 Egilsstaðir
Sími: 470 0840, Fax: 470 0849