Lagarfljót

Lagarfljót teygir sig um endilangt Fljótsdalshérað. Í það fellur jökulvatn frá Vatnajökli og óteljandi bergvatnsár. Fyrir vikið er Lagarfljót mesta vatnsfall Íslands og a.m.k. 114 metra djúpt þar sem það er dýpst. Frægð þess á heimsvísu er þó meiri fyrir furðusýnir sem raktar eru allt aftur til ársins 1345. Síðan þá hefur Lagarfljótsormurinn skotið kynslóð eftir kynslóð skelk í bringu á bökkum Fljótsins á ofanverðu Héraði og á Úthéraði hafa risavaxinn skata og selur látíð á sér kræla við lítinn fögnuð heimamanna.

Þjóðsagan

Í þjóðsögum er uppruni þessa mesta vatnaskrímslis Íslands rakinn til þess að heimasæta á bæ einum norðan við fljót fékk gullhring að gjöf frá móður sinni. Hún hafði heyrt að gullið myndi vaxa ef að það væri sett í öskju með lyngormi, svo það gerði stúlkan. Á nokkrum dögum uxu gullið og ormurinn svo mikið að askjan var við það að springa. Þá varð stúlkan hrædd og fleygði öskjunni í fljótið. En þar hélt ormurinn áfram að vaxa og varð fljótlega vart þegar hann tók að bylta sér og láta ófriðlega. Sent var eftir samískum galdramönnum til Finnmerkur og við illan leik tókst þeim að hlekkja orminn við botninn á hala og haus.
Lagarfljótsormurinn hefur eftir það ekki valdið skaða en skotið upp kryppum sínum í tíma og ótíma. Segja sumir að það boði náttúruhamfarir eða plágur þegar sést til hans.

Myndbandsupptakan

Vísindamenn og náttúrufræðingar hafa leitað skýringa á þessum furðusýnum sem skráðar hafa verið í bækur öld eftir öld. Sumt hefur tekist að skýra sem reköld eða gasuppstreymi en annað er enn óútskýrt. Það vakti því mikla athygli þegar Hjörtur Kjerúlf, bóndi á Hrafnkelsstöðum, náði kvikmynd í febrúar 2012 af ókennilegum ormi sem virtist synda upp Jökulsá í Fljótsdal. Myndbandið komst í heimsfréttirnar og milljónir manna hafa auk þess horft á það á Youtube. Erlendir þáttagerðarmenn hafa síðan streymt til landsins og leitað að Lagarfljótsorminum eina sanna sem talinn er margfalt stærri en fyrirbærið sem sást við Hrafnkelsstaði.

 

Nærð þú mynd af skrímslinu?

Flestir Héraðsbúar efast ekki um tilvist Lagarfljótsormsins enda hafa ótrúlega margir séð sitthvað sem erfitt er að útskýra. Komið hefur verið fyrir upplýsingaskiltum á völdum áningarstöðum umhverfis Fljótið þar sem tilvalið er að stoppa og skyggnast um eftir skrímslinu.
Ormsslóðirnar ná frá brúnni við Egilsstaði og inn í Fljótsdal. Tilvalið er að keyra Lagarfljótshringinn svonefnda og njóta fjölbreyttrar náttúru og þjónustu sem er að finna á leiðinni. Næsta dag er síðan hægt að keyra með Fljótinu í átt til sjávar og leita uppi aðrar furðuskeppnur.
En ekki gleyma að hafa myndavélar tiltækar því að enn vantar óvéfengjanlegar myndir af Lagarfljótsorminum í öllu sínu veldi með kryppur sem rísa marga metra upp úr yfirborðinu. Enginn veit hvað býr í myrkum djúpum hins jökullita Lagarlfjóts.
Viltu vita meira um Lagarfljótsorminn ?
Hér er hlekkur á heimasíðu tileinkaða þessu fræga vatnaskrímsli Lagarfljótsins.

X