Ferðafélag Fljótsdalshérað, sveitarfélagið Fljótsdalshérað og Kaupvangur menningar og fræðasetur Vopnfirðinga sameinuðust fyrir nokkrum árum um að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu á Jökudalsheiðinni og heiðunum þar í kring. Settir voru upp staukar hjá 22 býlum, sem innihalda upplýsingar um býlið, ábúendur og sögur tengdar því, gestabók og stimpil. 2017 var svo 4 býlum á Almenningi í Selárdal, bætt við. Gönguleikur er tengdur verkefninu, sem felst í því að safna 10 stimplum í þar til gerð kort og skila þeim til Ferðafélags Fljótsdalshéraðs eða á Egilsstaðastofu við Tjaldstæðið á Egilsstöðum. Dregið er úr kortunum um veglega vinninga í september ár hvert. Kortin eru til sölu í Sænautaseli, á Upplýsingamiðstöðvum á Egilsstöðum og Vopnafirði, hjá Egilsstaðastofu og á skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8, Egilsstöðum.
Á 19.öld hófst byggð á ný í Jökuldalsheiði og er þá átt við fasta búsetu árið um kring. Þessi byggð stóð í rúma öld eða frá 1841 til 1946. Býlin í Jökuldalsheiðinni urðu alls 16 að tölu og voru reist á árabilinu 1841 til 1862. Mörg býlanna byggðust upp á gömlum seljum og flestir sem stofnuðu þau voru af Fljótsdalshéraði, en nokkrir komu þó annars staðar frá, helst af Ausfjörðum eða Norðurlandi. Flest mun hafa búið í Jökuldalsheiðinni í einu 120 manns. Auk þessara býla eru með í þessu verkefni býlið Netsel , 5 býli á Vopnafjarðarheiði og 4 býli á Almenningi í Selárdal. Alls eru þetta 26 býli.
Við Öskjugosið „þá yfir hrundi askan dimm, átjánhundruðsjötíu og fimm“ lögðust bæir í Suðurheiðinni í eyði, sem þá voru í byggð, nema Rangalón. Háls var kominn í eyði. Nokkrir byggðust aftur að fáum árum liðnum. Öskugeirann lagði í austur frá Öskju. Askan féll víða en þó mest á hálendinu og fóru sum heiðarbýlin mjög illa út úr því. Við öskufallið fluttu margir, fyrst niður í sveitirnar í kring en fjöldi þeirra sigldi síðar vestur um haf næstu árin og er því mikill fjöldi Vestur-Íslendinga afkomendur fólksins úr Heiðinni.
Verslun sóttu heiðarbúar nær eingöngu til Vopnafjarðar. Frá Veturhúsum var t.d. um 75 km leið í kaupstað. Leiðir í kaupstað og milli bæja voru flestar auðveldar en vegalengdir komu í veg fyrir tíðar ferðir. Árið 1934 komst á vegasamband milli Norður- og Austurlands og lá vegurinn í fjöruborði Sænautavatns, hjá Rangalóni. Eftir það fóru bændur á Jökuldalsheiðinni að versla við Kaupfélag Héraðsbúa, Reyðarfirði. Þá voru þar aðeins fjögur býli eftir, Sænautasel, Veturhús, Ármótasel og Heiðarsel. En íbúar Vopnafjarðarmegin, á Brunahvammi, Arnarvatni og Fossi sóttu áfram verslun til Vopnafjarðar.
Búskaparskilyrði í Heiðinni voru á margan hátt góð þótt víða væri snjóþungt, enda flest býlin í yfir 500 metra hæð. Silungsveiði var ágæt í flestum vötnum á svæðinu, rjúpnaveiði mikil á vetrum og yfir sumartímann var gnótt af gæsum, öndum og álftum. Hreindýr voru þarna frjáls, en þó er talið að stofninn hafi verið í sögulegu lágmarki upp úr aldamótunum 1900 og upp úr því voru þau friðuð.
Talsvert hefur verið ritað um heiðarbýlin, m.a. Gunnar Gunnarsson (Heiðarharmur, Sálumessa) og Halldór Stefánsson í Austurland I. Þá fékk Halldór Laxness innblástur í Sjálfstætt fólk er hann dvaldist nokkra daga á Eiríksstöðum, fór svo norður Heiðina og kom m.a. við á Veturhúsum og gisti svo í Sænautaseli á leið sinni norður í land. Talið er að hann hafi notað Veturhús sem fyrirmynd að Sumarhúsum, en Bjartur bóndi hafi verið samsuða úr ýmsum karakterum á Heiðinni.
ÞJÓNUSTUAÐILAR
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs – Tjarnarási 8 – 700 Egilsstaðir – (Pósthólf 154)
Simi: +354 863 5813
Vefur: www.ferdaf.is
Netfang: ferdaf@ferdaf.is
Netfang: info@visitegilsstadir.is