Stórurð er án efa eitt stórfenglegasta náttúrufyrirbrigði á Austurlandi og þó víðar væri leitað. Talið er að hinar stóru steinblokkir sem einkenna Stórurð hafi fallið niður á ís sem síðan flutti þær fram dalinn. Þannig varð til þessi undraveröld sem einkennist af sléttum grasbölum og hyldjúpum tjörnum innan um stór björg á hæð við fjölbýlishús. Nokkrar gönguleiðir liggja í og frá Stórurð. Ein liggur í hlíðunum upp að Vatnsskarði, ein í Vatnsskarðinu sjálfu (65°33,71- 13°59,56) og ein á leið niður í Njarðvík (65°33,05-13°58,24). Eins er hægt að ganga tvær leiðir úr Stórurð beint til Borgarfjarðar, báðar mjög áhugaverðar. Önnur er upp urðina og áfram um Eiríksdalsvarp og niður að Hólalandi, innst í Borgarfirði en hin er yfir Mjóadalsvarp og áfram um Grjótdalsvarp og komið niður í Bakkagerði, þorpið í Borgarfirði eystra. Stikuð hringleið er í Urðinni sjálfri og þar er kassi með gestabók og stimpli. Stórurð er viðkvæm fyrir átroðningi og því er göngufólk beðið um að halda sig á merktum stígum og það er ekki síður mikilvægt ef er þoka því afar villugjarnt getur orðið á svæðinu. Einnig er gönguleiðin talsvert snjóþungt og því skyldu ferðamenn spyrjast fyrir um snjóalög ef þeir eru á ferðinni snemma sumars. Best er að fara í Stórurð eftir miðjan júlí og fram í miðjan september.

 Stórurð
 Stórurð

ÞJÓNUSTUAÐILAR

 Stórurð

Simi: 4700750

Netfang: info@visitegilsstadir.is

X