Saga kirkjunnar
Valþjófsstaður er fornt höfuðból í Fljótsdal. Prestssetur hefur verið þar frá að minnsta kosti 14.öld.
Núverandi kirkja er steinsteypt, vígð 1966 og tekur 95 manns í sæti. Kirkjan er með forkirkju, sönglofti og turni. Í kirkjunni er nákvæm eftirlíking af Valþjófsstaðarhurð sem er einhver dýrmætasti gripur Þjóðminjasafns Íslands. Eftirmyndina skar Halldór Sigurðsson frá Miðhúsum. Brottfluttir Fljótsdælingar gáfu kirkjunni hana á vígsludaginn. Þessi gamla Valþjófsstaðahurð mun vera frá 13. öld, fyrst skálahurð í bústað höfðingja og síðar í stafkirkju Valþjófsstaðar, sem stóð um aldir, allt fram yfir siðaskipti. Hún er 206,5 sm á hæð og sett saman úr þremur borðum með nót og fjöður. Á framhlið hennar eru tveir kringlóttir reitir með útskurði (97 sm í þvermál hvor). Milli reitanna er stór járnhringur með greyptri silfurskreytingu.
Margir mætir menn hafa lokið upp einum munni um útskurðinn og talið hann einhvert stílhreinasta rómanska verk á Norðurlöndum. Árið 1852 var hurðin seld til Kaupmannahafnar en kom þaðan aftur með fleiri íslenskum listaverkum árið 1930.
ÞJÓNUSTUAÐILAR