Veghleðslur

Breiðdalsheiði er milli Víðigrófar innst í Skriðdal og Suðurdals Breiðdals. Yfir heiðina liggur þjóðvegurinn milli Fljótdalshéraðs og Breiðdals og hefur þar verið alfaraleið um aldir. Á Breiðdalsheiði gefur að líta sérstæðar og merkar minjar um vegagerð á 19. öld. Þar eru heillegar veghleðslur frá því um 1870. Þær eru, ásamt allmörgum vörðum, hluti vegagerðar sem þótti vönduð á sínum tíma og auðveldaði mjög ferðir ríðandi manna með klifjahesta milli Breiðdals og Fljótsdalshéraðs. Þessi vegur var í notkun í um 90 ár, þar af var bílaumferð yfir hann síðustu 20 árin. Veghleðslurnar eru minjar um fornt handverk og vegagerð fyrri tíma sem unnin var með höndum og handverkfærum eingöngu.
Gamli vegurinn yfir háheiðina er vel greinilegur mestan hluta leiðarinnar frá Þröng (efst á heiðinni, þar sem veginum hallar niður í Breiðdal) og niður í Víðigróf í Skriðdal (þar sem gamli vegurinn hverfur undir núverandi veg við raflínuna). Þessi leið er tæpir 3 km og er því þægileg vegalengd fyrir gönguferð sem er í senn fræðandi og veitir innsýn í samgönguhætti fyrri tíma.

Vegghleðslur á Breiðdalsheiði – ítarefni

Um miðja 19. öld var mikið verk óunnið á Austurlandi (sem og víðar á landinu) við að bæta samgöngur og leggja vegi þar sem fyrir voru aðeins torfærir troðningar, t.a.m. á fjallvegum.
Í sýslulýsingu Suður-Múlasýslu frá árinu 1842, sem gerð var af J.C. Voigt sýslumanni, er komið inn á stöðu vegamála í sýslunni. Þar kemur fram að leiðin yfir Breiðdalsheiði sé vörðuð, rudd og ágæt yfirferðar og leiðir um Berufjarðarskarð og Eskifjarðarheiði séu einnig varðaðar og ruddar árlega. Annars segir sýslumaður fjallavegi í sýslunni almennt vera torfæra.1
Sóknalýsingar frá 19. öld renna stoðum undir þessa skoðun sýslumanns. Í lýsingu Hallormsstaða- og Þingmúlasókna frá árinu 1874 er lýst vegum um og út úr sóknunum. „Vegabætur eru litlar á þessum vegum, nema sunnan megin á Breiðdalsheiði er nýlagður góður kafli, hlaðinn upp af grjóti í hallandi melum og urðum. Á öðrum stöðum eru ruddir kaflar skárri en ekki og einstöku brýr svo vegurinn er farandi nema á Öxi; þar er argur vegur, óruddur um fjölda ára.“2
Þegar leið nær lokum 19. aldar komst aukin kraftur í vegaframkvæmdir. Þá komu m.a. erlendir sérfræðingar til landsins til að starfa að vegagerð. Einn þeirra var norski verkfræðingurinn Niels Hovdenak sem landsstjórnin fékk árið 1884 til að sjá um vegarlagningu yfir Vestdalsheiði, milli Seyðisfjarðar og Héraðs, og kanna framtíðarvegstæði milli þessara byggðarlaga.3 Í grein sem birtist í tímaritinu Andvara árið 1885 lýsir Hovdenak hugmyndum sínum varðandi vegagerð á Íslandi og setur stöðu íslenskra vega í samhengi við þróun vegagerðar í Noregi. Hann bendir á að vegir á Íslandi séu á margan hátt líkir norskum vegum sem þá var hætt að nota og nefnir í því sambandi að barmar á ræsum hér á landi séu almennt hafðir mjög brattir, oft nærri þverhníptir, og því sé hætt við að þeir hrynji. Á þeim þurfi að vera halli. „Reyndar má gera vegarbrúnir varanlegar, þótt brattar sjeu, með því að múra þær upp með grjóti …“4 Þessi orð Hovdenak benda til að vegagerð líkt og sú sem Jón Finnbogason stýrði á Breiðdalsheiði hafi verið frekar fátíð hér á landi á þessum tíma. Hann hlóð kanta á vegum sem voru 1-3 steinaraðir og eitt helsta einkenni stærri veghleðslna á Breiðdalsheiði er einmitt hallinn, sem ætla má að sé lykilatriði í góðri endingu þeirra.

ÞJÓNUSTUAÐILAR

X