Móðir Jörð

Í Vallanesi fer fram lífræn ræktun á korni og grænmeti, fullvinnsla og framleiðsla tilbúinna matvæla sem grundvallast á hráefni af staðnum. Einnig er umfangsmikil skógrækt en á jörðinni hefur verið plantað fjölda trjáa og skjólbelta. Markmið framleiðslunnar er að rækta og nýta hráefni úr nánasta umhverfi staðarins, þróa bragð og rétti í takt við íslenska matvælahefð. Móðir Jörð er samnefnari fyrir hollustu og sælkeralínu okkar sem grundvallast á íslensku korni, grænmeti og jurtum.

Hreinleiki er lykilatriði í ræktun og framleiðslu okkar, ekki er notast við tilbúinn áburð eða eiturefni og matvörur okkar eru lausar við tilbúin hjálparefni, gervi- og litarefni. Manneldismarkmið eru okkur hugleikin og við leggjum áherslu á kynningu á notkun byggs til manneldis og leggjum síaukna áherslu á vinnslu þess og þróun rétta þar sem þetta úrvals heilkorn kemur við sögu

Vörur okkar fást í matvöruverslunum um allt land undir vörumerkinu Móðir Jörð. Grænmetið okkar er útiræktað og árstíðabundið og þar sérhæfum við okkur í fjölbreyttum tegundum fyrir veitingahús og heilsuverslanir. Allar okkar vörur bera vottunarmerki Vottunarstofunnar Tún um alþjóðlega viðurkennda framleiðsluhætti um lífræna ræktun og framleiðslu.

Helstu vöruflokkar eru þessir;
– Bygg og heilhveiti
– Hrökkbrauð
– Þurrefnablöndur (grunnur að uppskriftum til baksturs og morgunverðar)
– Sultað grænmeti (chutney)
– Sultur og ber
– Mjólkursýrt grænmeti
– Grænmetisréttir (frosin grænmetisbuff)
– Ferskt grænmeti

Ferðaþjónusta

Í Vallanesi er boðið uppá ýmsa þjónustu við ferðamenn yfir sumarmánuðina. Verslun er opin maí – september frá kl 9-18.00 mánudaga – laugardaga þar sem hægt er að kaupa vörur og nýuppskorið grænmeti.

Gistimöguleikar eru í uppábúnum rúmum eða í svefnpokaplássum og er boðið uppá staðbundinn morgunmat.

Boðið er uppá fjölbreytt form heimsókna fyrir hópa og hægt að sníða heimsóknir eftir þörfum og stærð hópsins.

Í Vallanesi er opið svæði með aðstöðu til að njóta skógarins á göngustígnum Ormurinn og er svæðið opið almenningi.

ÞJÓNUSTUAÐILAR

Simi: +354 471 1747
X