11. Hallormsstaðaskogur

Hallormsstaðaskógur er talinn stærstur skóga á Íslandi, um 740 ha. Hann er að mestu náttúrulegur birkiskógur en gerðar hafa verið tilraunir með innfluttar tegundir allt frá 1905. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með tjaldsvæðum, merktum gönguleiðum og trjásafni. Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands. Nú þekur birkiskógur um 350 ha lands innan sömu girðingar auk þess sem aðrar trjátegundir hafa verið gróðursettar í 200 ha. Alls eru nú í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum, víðs vegar um heiminn.

Hallormsstaður er um 27 km frá Egilsstöðum á austurströnd Lagarfljótss. Frá Egilsstöðum er hægt að velja um tvær leiðir að Hallormsstaðaskógi og sumir kjósa að keyra svokallaðan Lagarfljótshring í leiðinni. Hægt er að fara upp austan við Lagarfljót sem er styttri leiðin, 27 km eða vestan við Lagarfljót (um Fell) sem er 40 km.

Í Hallormsstaðaskógi eru margar mismunandi merktar gönguleiðir um fjölbreytt landslag skógarins. Allar gönguleiðirnar eru litamerktar og gönguleiðakort er aðgengilegt á þjónustustöðum á svæðinu og einnig í kössum við upphaf margra gönguleiða.

Hér er einnig hægt að sækja gönguleiðakortin á rafrænu formi – gönguleiðir.

10. Lagarfljót

Lagarfljót er þriðja stærsta stöðuvatn á Íslandi en það er 53 km2. Það er þekktast fyrir einstaka náttúrufegurð en ekki síður fyrir þjóðsöguna um Lagarfljótsorminn sem er frá 1345. Sagan segir að í fljótinu búi ógurleg skepna. Unglingsstúlka sem var búsett á bæ við fljótið fékk gullhring að gjöf frá móður sinni. Þá var því trúað, að ef gull væri geymt hjá ormi, myndi gullið stækka og verða verðmætara. Stúlkan fann því orm sem hún setti í öskjuna með hringnum, og stakk hvoru tveggja niður í skúffu. Þegar hún ætlaði síðar að athuga með gullið hafði ormurinn sem hvíldi í öskjunni stækkað svo mikið að askjan var sprungin. Stúlkunni brá svo mikið í brún að hún henti öskjunni með öllu í ofan í fljótið. Löngu síðar fór fólk á næstu bæjum að taka eftir skriðdýri í fljótinu. Það réðst á báta sem sigldu yfir fljótið og drap áhöfnina, auk þess sem hann skreið stundum á land og úðaði eitri. Var þetta ormurinn sem hafði haldið áfram að liggja á gullinu og stækka á botni fljótsins. Ormurinn hélt drápum sínum áfram í dágóða stund, þar til kallað var á tvo Finna sem áttu að geta ráðið niðurlögum skrímslisins. Þeir gátu þó ekki drepið það eins og til stóð en tókst að binda það niður á háls og hala svo að það getur ekki hreyft sig úr stað. Síðan þá hefur ormurinn legið kyrr og hefur ekki ráðist á neinn, en hann á það til að skjóta upp kryppum sínum upp úr vatninu. Það hefur sést til hans og um að gera að halda augunum opnum þegar ferðast er meðfram fljótinu ef ske kynni að hann reisti kryppuna upp úr vatninu.

9. Fardagafoss

Fardagafoss er fallegur foss ca. 5 km frá Egilsstöðum, nálægt veginum sem liggur til Seyðisfjarðar. Gangan frá bílastæðinu tekur um það bil hálftíma sem gerir þessa göngu tilvalda fyrir fjölskylduna. Slóðinn liggur meðfram fallegu gili og þaðan er útsýni yfir allt héraðið sem breiðir úr sér fyrir neðan. Þó gangan sé þægileg verður seinasti parturinn aðeins brattari, þar sem gengið er niður gilið og farið aftan við fossinn. Keðja hefur verið fest við klettavegginn til að gera gönguna auðveldari. Bakvið fossinn er lítill hellir svo þetta klifur í lokin er algjörlega þess virði. Þjóðsaga tengist Fardagafossi en sagt var að tröll byggi í hellinum á bak við fossinn.

Skessa undir Fardagafossi.

Í norðurbrún Fjarðarheiðar er foss í Miðhúsaánni sem kallaður er Fardagafoss. Nokkuð stór hellir er á bak við fossinn. Í honum er sagt að skessa ein mikil og ferleg hafi búið til forna. Telja menn að göng liggi úr hellinum í gegnum fjallið og komi þau út undir Gufufossi í Seyðisfirði. Skessan undir Fardagafossi var þekkt fyrir að eiga ketil einn mikinn fullan af gulli. Þegar skessan var orðin gömul og vissi fyrir dauða sinn þá renndi hún katlinum með gullinu niður í djúpan skessuketil sem er í miðjum Gufufossi sem er í Miðhúsaánni nokkru neðar en Fardagafoss. Enginn hefur þorað að síga þar niður og kafa eftir gullinu svo menn viti. Það er sagt að hægt sé að sjá haldið á gullkatlinum þegar lítið vatn er í ánni. Einhverju sinni fyrir langalöngu var ketti sleppt inn í hellinn undir Fardagafossi og hellisopinu lokað. Segja menn að kisi kæmi út undir Gufufossi í Seyðisfirði.

Sigfús Sigfússon. Íslenskar þjóðsögur og sagnir III, bls. 280.

Nafnið Fardagafoss vísar til fornra laga og reglugerða. Sú kvöð var að allt jarðnæðislaust fólk skyldi vera í vinnumennsku. Ef karl og kona réðu ekki eigin búi urðu þau að vera vinnuhjú á heimili bónda. Fólk réð sig í ársvist í senn og mátti eingöngu skipta um vinnuveitanda á vinnuhjúaskildaga samkvæmt lögum um vistarband. Fyrir þann tíma miðuðust vistaskipti vinnandi fólks við fardaga, eða þá daga sem fólk skildi flytjast búferlum. En fardagar voru frá 31. maí til 6. Júní.

8. Fossagangan og heitu laugarnar í Laugarfelli 

Fossagangan er falleg gönguleið sem liggur að fimm fossum. Sumir þeirra eru meðal þeirra kröftugustu á svæðinu. Fossagangan hefst við eyðibýlið Kleif og liggur eftir bökkum Jökulsár í gegnum birkiskóg. Fljótlega kemur fyrsti fossinn í ljós og svo birtast þeir einn af öðrum eftir því sem líður á gönguna.
Gangan tekur um sex klst. og endar í Laugarfelli. Þar bíða heitar laugar þar sem uppálagt er að hvíla sig og slaka vel á eftir gönguna.

7. Stórurð

Stórurð er án efa eitt stórfenglegasta náttúrufyrirbrigði á Austurlandi og þó víðar væri leitað. Talið er að hinar stóru steinblokkir sem einkenna Stórurð hafi fallið niður á ís sem síðan flutti þær fram dalinn. Þannig varð til þessi undraveröld sem einkennist af sléttum grasbölum og hyldjúpum tjörnum innan um stór björg á hæð við fjölbýlishús. Nokkrar gönguleiðir liggja í og frá Stórurð. Ein liggur í hlíðunum upp að Vatnsskarði, ein í Vatnsskarðinu sjálfu (65°33,71- 13°59,56) og ein á leið niður í Njarðvík (65°33,05-13°58,24). Eins er hægt að ganga tvær leiðir úr Stórurð beint til Borgarfjarðar, báðar mjög áhugaverðar. Önnur er upp urðina og áfram um Eiríksdalsvarp og niður að Hólalandi, innst í Borgarfirði en hin er yfir Mjóadalsvarp og áfram um Grjótdalsvarp og komið niður í Bakkagerði, þorpið í Borgarfirði eystra. Stikuð hringleið er í Urðinni sjálfri og þar er kassi með gestabók og stimpli. Stórurð er viðkvæm fyrir átroðningi og því er göngufólk beðið um að halda sig á merktum stígum og það er ekki síður mikilvægt ef er þoka því afar villugjarnt getur orðið á svæðinu. Einnig er gönguleiðin talsvert snjóþungt og því skyldu ferðamenn spyrjast fyrir um snjóalög ef þeir eru á ferðinni snemma sumars. Best er að fara í Stórurð eftir miðjan júlí og fram í miðjan september.

Sjá bækling með gönguleið hér.

6. Lundar 

Höfnin á Borgarfirði eru vottuð Bláfánahöfn. Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun sem veitt er höfnum, baðströndum og þjónustuaðilum í sjávarferðamennsku fyrir árangursríkt starf að umhverfismálum.
Aðstaðan við Hafnarhólma til fuglaskoðunar er með eindæmum góð og hér er auðvelt að komast í návígi við Lunda, Fýl, Ritu og Æðarfugl auk annara tegunda sem dvelja í og við hólmann. Á undanförnum árum hefur Borgarfjarðarhreppur ásamt landeigendum lagt metnað sinn í að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn til fuglaskoðunnar og útivistar við höfnina. Búið er að leggja göngupalla um hólmann, opna fuglaskoðunarhús og nú er verið að byggja móttökuhús fyrir ferðamenn við höfnina.
Hér er mikið lundavarp og talsvert æðavarp ásamt dálitlum ritu- og fýlsvörpum. Æðavarpið er mest áberandi í fyrri hluta júní á meðan blikinn er í varpinu. Lundinn er við holur sínar fram í ágústbyrjun og rita og fýll við hreiður út ágúst.

5. Vök Baths

Vök Baths eru heitar náttúrulaugar við Urriðavatn, í einungis 5 km kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum. Laugarnar eru fullkominn áningarstaður allra þeirra sem vilja upplifa beina snertingu við náttúruna og næra um leið líkama og sál.
Á Austurlandi eru fá jarðhitasvæði og því eru heitar náttúrulaugar spennandi nýung fyrir íbúa og þá sem sækja Austurland heim. Þess má geta að jarðhitavatnið sem kemur úr borholum Urriðavatns er auk þess svo hreint að það hefur verið vottað hæft til drykkjar en ekkert jarðhitavatn hér á landi hefur fengið þá vottun sem eykur enn á sérstöðu Vök Baths.
Heitar uppsprettur Urriðavatns eru hér orðnar að einstakri vin, þar sem ósnortin náttúran er allt um kring. Vakirnar, fljótandi laugar Vök Baths, eru aðal kennimerki staðarins en þær eru fyrstu fljótandi laugar landsins og skapa þær náttúruupplifun fyrir gesti sem er engu lík.

4. Óbyggðasetrið og kláfurinn

Á Óbyggðasetrinu hefur verið sköpuð ævintýraveröld sem byggir á nálægðinni við óbyggðirnar. Lifandi sýning Óbyggðasetursins er skemmtileg leið til að kynnast sögum óbyggðanna. Gestum gefst kostur á njóta veitinga í einstöku umhverfi og prófa óhefðbunda gistingu. Á merktum gönguleiðum má skoða eyðibýli og fossa eða renna sér á kláf yfir Jökulsá. Boðið er upp á reiðtúra, fjallahjólaleigu og seld eru silungsveiðileyfi.
Um leið og gestir leggja bílum sínum og ganga yfir gamla trébrú hjá Óbyggðarsetrinu, stíga þeir inn í ævintýri í fortíðar. Hvert smáatriði er hannað til að láta gestina upplifa að þeir taki þátt í þessu ævintýri. Byggingar, innanstokksmunir, matur, starfsemi og vélar gegna allt mikilvægu hlutverki í þessari reynslu. Húsnæðið er samþætt inn í safnið, og þannig geta gestir okkar varið bæði nótt og degi í “Óbyggðum.”
Í Óbyggðasetrinu geta gestirnir notið þess að liggja í heitri laug með fallegu útsýni um dalinn. Laugin er frábær staður til að slappa af undir stjörnubjörtum vetrarhimni eða í miðnætursólinni að sumri. Inni er svo hægt að eiga notalega stund í sauna klefanum eða slaka á í hengirúmi við hliðina á arninum í slökunarherberginu.
Óbyggðasetur Íslands bíður upp á hestaferðir, frá tveimur klukkustundum upp í dagsferðir. Við höfum rekið ævintýrahestaferðir um árabil og njótum þess að deila þeirri ástríðu með gestum okkar. Hestarnir eru valdir með það fyrir augum að tryggja jafnt ánægju sem öryggi knapanna.

3. Askja

Meðfram þjóðveginum er ótrúlegt magn af fallegum og áhugaverðum stöðum sem auðvelt er að komast að. Það gerir það að verkum að margir taka sér ekki tíma í að skoða það sem er lengra frá og því er hálendið okkar að mestu leyti ósnortið og nokkuð laust við ferðamenn. En einmitt þar leynast margar af helstu náttúruperlunum okkar. Askja í Dyngjufjöllum er náttúrusmíð sem á fáa sína líka í veröldinni. Lengi vel var Askja eina þekkta askjan hérlendis, eða sigdæld í eldfjalli. Síðari tíma rannsóknir hafa staðfest að öskjurnar í Dyngjufjöllum eru í rauninni þrjár, hver ofan í annarri. Sú yngsta myndaðist í kjölfar stórgoss í kerfinu árin 1874-5 og varð þá Öskjuvatn til sem nú er annað dýpsta vatn á Íslandi, eða um 220 metra djúpt. Aðeins Jökulsárlón á Breiðamerkursandi er dýpra, um 280 m en svo má hinsvegar deila um hvort það teljist vera stöðuvatn eða ekki. Rannsóknir á Öskju, þessu magnaða, tröllslega landslagi órafjarri mannabyggðum hafa tekið sinn toll. Árið 1907 drukknaði Þjóðverjinn Walter Von Knebel ásamt samlanda sínum í Öskjuvatni en hann hafði skrifað fræðigreinar í erlend tímarit um myndunarsögu Öskju. Það var þó fræðimaðurinn Þorvaldur Thoroddsen sem fyrstur manna sýndi fram á að Öskjuvatn væri sigketill. Eldvirkni hefur verið á Dyngjufjallasvæðinu lengi, amk. síðan á næstsíðasta jökulskeiði en því lauk fyrir um 100.000 árum. Mikil eldvirkni hefur verið í Öskjukerfinu síðan jökulskeiði ísaldar lauk fyrir 10-12.000 árum. Frá Landnámi og fram til 1874 eru ekki heimildir um gos á svæðinu enda eins og áður segir, víðs fjarri mannabyggðum og þó eldsbjarmi sæist til fjalla var ekki auðvelt að staðsetja gosin. Árið 1874 hefst svo geysiöflug rek- og goshrina á svæðinu og önnur hrina gengur svo yfir á árunum 1921-1930. Þá urðu allmörg gos á svæðinu, líklega 9 talsins, en öll minniháttar. Síðast gaus svo við Öskju árið 1961. Undanfarin ár hefur skjálftavirkni á svæðinu heldur verið að aukast og þá má nefna endurteknar hrinur við Upptyppinga sem eru í næsta nágrenni Öskju. Eldsumbrot á svæðinu á næstu árum er því engan veginn hægt að útiloka

Víti er stærstur sprengigíga í Öskju. Gígurinn er um 60 metra djúpur og 300 metrar í þvermál. Víti myndaðist í Öskjugosinu 1875 og að öllum líkindum í gufusprengingu. Í gosinu spúði gígurinn ösku og vikri í einu stærsta öskugosi í sögu landsins. Öskufallið af því gosi fór illa með byggð á Austurlandi og margir fluttu þaðan til Ameríku.

Margir ferðamenn heimsækja Víti árlega en leiðin þangað er löng og torfærin. Þaðan sjást Kverkfjöll og Herðubreið mjög vel. Á móti gígnum rísa síðan Dyngjufjöll.

Hægt að baða sig í Víti en best er að ráðfæra sig við landverði áður en það er gert þar sem hitastigið er mjög breytilegt. Það getur verið á milli 20-60°C. Vatnið í gígnum er brennisteinsvatn og nær um átta metra dýpt. Brennisteinsgufa getur einnig haft áhrif á öndunarfæri og fólk hefur fallið í yfirlið af hennar völdum.

Askja er í Vatnajökulsþjóðgarði. Frá bílastæði við Öskju (í Vikraborgum) er stikuð gönguleið að Víti og Öskjuvatni. Á sumrin fara landverðir í Öskju í fræðslugöngur og er gestum velkomið að taka þátt. Er það kjörin leið til að kynnast svæðunum betur.

Landvörslustöð í Drekagili:
Sími: 842 4357/ 842 4357
GPS hnit: N65° 02.514′ W016° 35.691′

2. Stuðlagil

Á Jökuldal á Fljótsdalshéraði er að finna náttúruperlu sem lengi var lítt þekkt. Hún kom ekki almennilega í ljós fyrr en eftir að Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun og vatnsmagnið í Jökulsá á Dal, eða Jöklu, snarminnkaði. Þessi perla er sá hluti Jökulsárgljúfurs sem nefnist Stuðlagil. Nafnið er dregið af því að þar er að finna eina stærstu og fallegustu stuðlabergsmyndun á Íslandi.

Það eru tvær leiðir í boði til þess að skoða gilið. Annars vegar er hægt að keyra suður af Hringveginum (vegi nr. 1) rétt innan við Skjöldólfsstaði, inn á veg númer 923. Þaðan eru um 19 kílómetrar að bænum Grund en þar eru bílastæði og merktur stígur að gilinu (gangan er um 250 metrar, eða 5 mínútur). Þar er gott útsýni niður í gilið og út eftir því, og fjölbreytt stuðlabergið nýtur sín. Þó gangan sé stutt þarf að fara varlega því stígurinn liggur að hluta í miklum bratta.

 

Til þess hins vegar að komast ofan í gilið, niður að ánni, þarf að fara að gilinu austan megin. Þá er keyrt að brúnni hjá bænum Klausturseli, einnig eftir vegi nr. 923 um 14 kílómetra frá Hringveginum. Hafa skal í huga að það má ekki að keyra yfir brúna heldur leggja á bílastæðu vestan megin við hana. Þaðan er gengið yfir brúna og eftir slóða (rúmlega 5 kílómetra) þangað sem hægt er að komast niður í gilið. Hafa ber í huga að klettar og steinar geta verið blautir og þar af leiðiandi mjög sleipir. Á leiðinni, um 2 kílómetra frá brúnni er tignarlegur foss, Stuðlafoss, sem fellur fram af þverhníptu stuðlabergi. Þessi gönguleið er rúmlega 10 kílómetrar samanlagt, og þegar gert er ráð fyrir að stoppað sé við fossinn og gilið sjálft, gæti hún tekið 3 tíma.
Nauðsynlegt er að hafa í huga, sama hvora leiðina fólk velur að fara, að náttúra svæðisins er viðkvæm. Stuðlagil er nýr áfangastaður og aðsóknin er mikil en uppbygging skammt á veg komin. Gestir eru því hvattir til þess að bera virðingu fyrir umhverfinu og ganga snyrtilega um. Á tímabilinu 1. maí – 10. júní verpa fjölmargar heiðagæsir á svæðinu og eru gestir þá hvattir til þess að halda sig innan merktra gönguleiða og láta fuglana í friði.

1. Hengifoss

Hengifoss er einn hæsti foss landsins, mælist 128 m frá fossbrún og að botni hins stórfenglega gljúfurs. Bergveggirnir í gljúfrinu sýna ólík jarðlög frá eldgosum á tertíertíma jarðsögunnar þegar Ísland var að myndast. Það tekur um 40-60 mínútur að ganga frá bílastæði að fossinum. Á leiðinni er annar magnaður foss sem heitir Litlanesfoss. Sá er krýndur stuðlabergi sem er með því hærra á landinu og einstaklega myndrænt.
Frá bílastæðinu byrjarðu á því að ganga upp tröppur. Síðan tekur við fremur álíðandi malarborinn stígur. Þegar þú ert u.þ.b. hálfnaður upp, um 1,2 km frá bílastæðinu sérðu Litlanesfoss með sína fallegu stuðlabergsumgjörð. Þar liggja slóðir niður í gilið neðan við fossinn en þeir eru brattir og í lausri möl svo að það er vissara að fara varlega ef þú ætlar þér niður í gilið. Alls staðar á gönguleiðinni er rétt að gæta varúðar við gilbarminn þar sem er hætta á að falla fram af og sérstaklega ef börn eru með í för.

 

X