Egilsstadir

Helgi á Héraði

Ofur spennt fyrir heilli helgi í útivistarparadísinni á Héraði tek ég daginn snemma á laugardagsmorgni og byrja á því að keyra frá Egilsstöðum áleiðis í Hallormsstaðaskóg. Á leiðinni stoppa ég í Vallanesi þar sem fyrirtækið „Móðir Jörð“ er til húsa. Í Asparhúsinu í Vallanesi, sem er byggt úr íslensku timbri, fæ ég mér staðgóðan og lífrænan morgunverð úr íslensku byggi, ræktuðu á staðnum. Í litlu sætu versluninni þeirra birgi ég mig upp með gómsætum vörum sem framleidd eru á staðnum. Með belginn fullan af hollum og góðum mat held ég áfram inn í Hallormsstað. Það er fátt betra en að rölta um stærsta skóg Íslands og týna sér á milli trjánna og anda að sér birkiilminum. Að sjálfsögðu reyni ég að koma auga á Lagarfljótsorminn, sem eins og allir vita, býr í fljótinu.

Vallanes

Eftir hressandi og endurnærandi göngu um Hallormsstaðakóg fer ég á fjórhjóli um skóginn með East Highlanders. Þetta er frábær leið til að koma blóðinu á hreyfingu og sjá skóginn frá öðru sjónarhorni um leið. Hægt er að fá lánaða hlífðargalla því mesta fjörið er að æða í gegnum læki og drullu á leiðinni. Leiðsögumaðurinn stoppar á völdum útsýnisstöðum og segir sögur af skóginum og íbúum hans svo ég verð margs vísari eftir þessa skemmtilegu upplifun.

Hallormsstaður
Skriðuklaustur

Eftir hressandi rúntinn legg ég leið mína inn í Skriðuklaustur. Það er sögustaður með rústum miðaldaklausturs frá 16. öld en minjarnar voru grafnar upp á árunum 2002-2012. Þar stendur líka herragarðshúsið sem rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson byggði árið 1939. Húsið er mjög sérkennilegt, steinhlaðið og með torfþaki. Þar er sýning um klaustrið og safn um Gunnar skáld en Snæfellsstofa er einnig staðsett á svæðinu. Þar er gaman að kíkja við og skoða gagnvirka sýningu um náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs. Það er tilvalið að fá sér hádegisverð á Skriðuklaustri, en veitingastaðurinn Klausturkaffi leggur áherslu á hráefni af svæðinu. Frá Skriðuklaustri held ég áfram veginn í Laugarfell sem er uppi á Fljótsdalsheiðinni. Skyndileg breytingin í landslaginu er sláandi þegar komið er upp á heiðina – ég skil við græn tún og engi og gróskumikinn skóginn og við taka gráar og hrjóstrugar eyðilendur heiðarinnar. Í Laugarfelli leggst ég í heitan pott og skola af mér skógarrykið. Vatnið í pottunum er úr náttúrulegri uppsprettu og pottarnir eru hlaðnir úr steinum á gamla mátann.

Laugarfell
Hallormsstaður

Frá Laugarfelli liggur leiðin beinustu leið að Kárahnjúkavirkjun en hún hefur verið nefnd stærsta framkvæmd Íslandssögunnar og er sennilega ein sú umdeildasta. Hún er 690 MW vatnsaflsvirkjun og er 198 metrar að hæð. Það er vægast sagt stórkostleg upplifun að ganga eftir stíflunni og horfa niður í gljúfrið fyrir neðan. Eftir að hafa fundið fyrir smæð mannsins á stórbrotinni stíflunni keyri ég eftir jeppaslóða að Dimmugljúfrum. Þar er dásamleg gönguleið niður í gljúfrið. Gangan er örlítið brött á köflum en stígurinn er greinilegur og keðjur sem hægt er að halda sér í yfir erfiðustu kaflana. Eftir þessa hressandi göngu keyri ég áfram niður í Jökuldal. Þar er að finna náttúruperlu sem lengi var lítt þekkt. Hún kom ekki almennilega í ljós fyrr en eftir að Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun og vatnsmagnið í Jökulsá á Dal, eða Jöklu, snarminnkaði. Þessi perla er sá hluti Jökulsárgljúfurs sem nefnist Stuðlagil. Nafnið er dregið af því að þar er að finna eina stærstu og fallegustu stuðlabergsmyndun á Íslandi.

Það eru tvær leiðir í boði til þess að skoða Stuðlagil. Annars vegar er hægt að keyra suður af Hringveginum (vegi nr. 1) rétt innan við Skjöldólfsstaði, inn á veg númer 923. Þaðan eru um 19 kílómetrar að bænum Grund en þar eru bílastæði og merktur stígur að gilinu (gangan er um 250 metrar, eða 5 mínútur). Þar er gott útsýni niður í Stuðlagil og út eftir því, og fjölbreytt stuðlabergið nýtur sín. Þó gangan sé stutt þarf að fara varlega því stígurinn liggur að hluta í miklum bratta.
Þar sem dagurinn er búinn að vera langur og viðurðaríkur vel ég styttri leiðina að þessu stórbrotna gili.

Kárahnjúkar

Eftir frábærlega vel heppnaðan dag í stórbrotinni náttúru fer ég á Ask Taproom sem er brugghús Austra. Þar er boðið upp á skoðunarferðir um verksmiðjuna og bjórsmökkun. Að lokum enda ég á að fá mér ljúffenga pizzu á sama stað, Askur Pizzeria.

Á sunnudeginum byrja ég daginn á morgunverðarhlaðborði á Gistihúsinu á Egilsstöðum og nýt útsýnisins yfir Lagarfljótið úr björtum veitingasalnum. Því næst liggur leið mín í gagnstæða átt við ferð gærdagsins, eða til hánorðurs. Ég legg vel nestuð af stað út í Eiðaþinghá þar sem ég byrja daginn á því að bregða mér á hestbak á Finnsstöðum. Eftir hressandi reiðtúrinn kíki ég á litla húsdýragarðinn þeirra en þar má klappa dýrunum. Eftir þessa viðkynningu við dýrin á Finnsstöðum held ég áfram sem leið liggur í átt að Borgarfirði eystra. Á leiðinni stoppa ég við lítinn, forvitnilegan kofa sem stendur rétt við veginn. Þar var dvaldi Kjarval oft sumarlangt og málaði margar af sínum frægustu myndum frá þessum stað. Bóndinn á Ketilsstöðum reisti kofann og gaf listamanninnum hann og landið sem hann stendur á eftir að hafa horft upp á Kjarval dvelja langtímum þar í tjaldi. Kofi þessi var eina fasteignin sem Kjarval eignaðist nokkurntíma en hann átti einnig lítinn bát sem liggur þarna enn. Áfram held ég í norðurátt. Þegar ég er rétt komin að Vatnsskarðinu legg ég bílnum og held í gönguferð dagsins sem liggur að forna verslunarstaðnum í Stapavík. Þetta er ákaflega falleg gönguleið sem hefst við bæinn Unaós og liggur meðfram Selfljóti með útsýni yfir kolsvartan Héraðssandinn sem eru í hróplegu ósamræmi við ljósu líparítfjöllin við Þerribjörg sem bera við sjóndeildarhringinn í átt að Vopnafirði. Á leiðinni má meðal annars sjá fallegar veghleðslur með kerruvegi sem gerður var á fyrri hluta 20. aldar. Við Stapavík eru fornar rústir verslunarstaðarins sem var á klöppunum þar sem vörum var skipað upp. Umhverfið er magnað og tilvalið að setjast hér niður í grasi gróna laut og borða nestið um leið ég reyni að koma auga á seli sem oftar en ekki synda rétt utan við landið. Endurnærð hoppa ég aftur upp í bílinn og fer til baka þar til ég kem að vegi 944 en þar beygi ég til hægri og held eftir honum sem leið liggur að Lagarfossvirkjun. Virkjunin er lítil eða um 7500 kW en umhverfið er fallegt og hægt að rölta aðeins um og dáðst að fossunum. Ég beygi til Norðurs á vegi 926 og ek sem leið liggur út í Húsey. Náttúran er dásamleg og friðsældin með eindæmum. Hægt er að ganga um nágrenni Hostelsins í Húsey og skoða lífríkið sem dafnar þarna fjarri ys og þys. Dýra- og plöntulífið er með eindæmum ríkt þarna og ég þarf að vera ansi óheppin ef ég rekst ekki á nokkra seli sem flatmaga á söndunum. Eftir að hafa gleymt mér dágóða stund á Húsey kem ég við í Geirsstaðakirkju sem er lítil og falleg torfkirkja. Hún er eftirgerð bændakirkju sem stóð þar fyrir 1000 árum og var grafin upp árið 1997. Þaðan liggur leið mín að Bókakaffi í Fellabæ þar sem ég gæði mér á kökuhlaðborðinu þeirra og fer svo södd og sæl að slaka á í Vök-baths. Eftir fullkominn dag í útivist labba ég á Glóð restaurant og fæ mér ískaldan drykk og gott að borða á fínum og nútímalegum staðnum.

Dimmugljúfur
Stuðlagi Canyon
Lake Lagarfljót
Borgarfjörður Eystri
Kjarval
Stapavik
Húsey
Vók Baths
X