Stuðlagil

Á Jökuldal á Fljótsdalshéraði er að finna náttúruperlu sem lengi var líttþekkt. Hún kom ekki almennilega í ljós fyrr en eftir að Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun og vatnsmagnið í Jökulsá á Dal, eða Jöklu, snarminnkaði. Þessi perla er sá hluti Jökulsárgljúfurs sem nefnist Stuðlagil. Nafnið er dregið af því að þar er að finna eina stærstu og fallegustu stuðlabergsmyndun á Íslandi.
Það eru tvær leiðir í boði til þess að skoða gilið. Annars vegar er hægtað keyra suður af Hringveginum (vegi nr. 1) rétt innan við Skjöldólfsstaði, inn á veg númer 923. Þaðan eru um 19 kílómetrar að bænum Grund en þar eru bílastæði, salerni og örugg aðkoma að gilinu með stigum og pöllum.  Það tekur um 5 mínútur að ganga að gilinu. Þar er gott útsýni niður í gilið og út eftir því, og fjölbreyttstuðlabergið nýtur sín.
Til þess hins vegar að komast ofan í gilið, niður að ánni, þarf að fara að gilinu austan megin. Þá er einnig keyrt eftir vegi nr. 923 um 14 kílómetra frá Hringveginum og beygt við Hákonarstaði við skilti sem stendur á Klaustursel. Hafa skal í huga að það má ekki að keyra yfir brúnaheldur leggja á bílastæðu vestan megin við hana. Þaðan er gengið yfirbrúna og eftir slóða (rúmlega 5 kílómetra) þangað sem hægt er að komast niður í gilið. Hafa ber í huga að klettar og steinar geta verið blautir og þar af leiðiandi mjög sleipir. Á leiðinni, um 2 kílómetra frá brúnni er tignarlegur foss, Stuðlafoss, sem fellur fram af þverhníptu stuðlabergi. Þessi gönguleið er rúmlega 10 kílómetrar samanlagt, og þegar gert er ráð fyrir að stoppað sévið fossinn og gilið sjálft, gæti hún tekið 3 tíma.
Nauðsynlegt er að hafa í huga, sama hvora leiðina fólk velur að fara, að náttúra svæðisins er viðkvæm. Stuðlagil er nýr áfangastaður og aðsóknin er mikil en uppbygging skammt á veg komin. Gestir eru því hvattir til þess að bera virðingu fyrir umhverfinu og ganga snyrtilega um. Á tímabilinu 1. maí – 10. júní verpa fjölmargar heiðagæsir á svæðinu og eru gestir þá hvattir til þess að halda sig innan merktra gönguleiða og láta fuglana í friði.

X