East Iceland Studlagil

Austurland er lítt þekkt svæði meðal margra ferðamanna. Algengt er að gestir á ferð um landið, rétt stoppi fyrir salerni, bensín og nesti á Egilsstöðum áður en ferðinni er haldið áfram til Mývatns eða Hafnar (eftir því á hvaða leið fólk er). Austurland hefur ákveðna sérstöðu sem jarðfræðilega elsti hluti Íslands og ótal margt sem gestir geta skoðað og upplifað ef þeir gefa sér tíma. Ef dvalið er í nokkra daga á Austurlandi geta gestir kynnst nánar þeim fjölmörgu perlum sem leynast á svæðinu og þarf oft ekki nema stuttan göngutúr til að bera þær augum.

Stuðlagil er ein slík perla. Stuðlagil var lengi vel lítt þekkt á meðal almennings og varð sýnilegra þegar Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun og vatnsmagnið í Jökulsá á Dal, minnkaði. Áberandi grænblá bergvatnsá streymir núna hægt á milli stórfenglegra stuðlabergshamra og flokkast þessi náttúrusmíð í dag til helstu djásna landsins.

The Touring Club of Fljótsdalshérað

Það kemur ekki á óvart að Stuðlagil var einn af vinsælustu áfangastöðum gesta sem ferðuðust um landið sumarið 2020. Til að komast að Stuðlagili er beygt af þjóðvegi 1 rétt innan við Skjöldólfsstaði í Jökuldal, inn á veg númer 923. Annars vegar er hægt að keyra að bænum Grund en þar eru bílastæði, salerni og örugg aðkoma að gilinu með stigum og pöllum. Þar er gott útsýni niður í gilið og út eftir því. Hins vegar, ef vilji er til þess að fara ofan í gilið, þarf að fara að gilinu austan megin. Þá er beygt út af veginum við Hákonarstaði niður að Klausturseli. Hafa skal í huga að það má ekki að keyra yfir brúna sem liggur yfir Jökulsána heldur þarf að leggja á bílastæðinu vestan megin við hana. Þaðan er gengið eftir slóða að Stuðlagili.

Stuðlagil
Hengifoss

Annar vinsæll áfangastaður í nágrenni Egilsstaða er Hengifoss. Hann er 128 metra hár og er því talinn þriðji hæsti foss landsins. Til að komast að upphafsstað göngu þá er keyrt frá Egilsstöðum eftir vegi 95 og síðar vegi 931 í gegnum stærsta skóg landsins, Hallormsstaðaskóg. Hinu megin skógarins opnast fallegur dalur, Fljótsdalur og þar handan Lagarfljótsins má sjá Hengifoss falla af fjallsbrúninni. Frá vegi virðist Hengifoss ekki vera mikill um sig en til þess að upplifa hann í öllu sínu veldi, þarf að ganga um 40-60 mín. leið eftir góðum göngustíg frá bílastæði. Á leið upp er fullkominn áningarstaður á miðri leið, Litlanesfoss. Litlanesfoss er ekki stór en falleg stuðlabergsumgjörð gefur honum glæsilegan brag og vel þess virði að hvíla sig og njóta útsýnisins áður en göngunni er haldið áfram. Þegar komið er að Hengifossi sést vel hvers vegna fossinn er einn vinsælasti ferðamannastaður á Austurlandi. Brattir hamraveggir umlykja fossinn þar sem skiptast á dökkgrá basalt berglög og áberandi rauð millilög úr rauðabergi. Gilið í kringum hann hefur því ekki minna aðdráttarafl en fossinn sjálfur og gerir þessi umgjörð hann einn af glæsilegustu fossum landsins.

Lítlanesfoss

Sá áfangastaður sem hefur þó slegið öll aðsóknarmet, er Vök Baths. Vök Baths eru heitar náttúrulaugar við Urriðavatn, í einungis 5 kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum. Laugarnar opnuðu sumarið 2019 og eru fullkominn áningarstaður allra þeirra sem vilja slaka á eftir annir dagsins. Vakirnar, fljótandi laugar Vök Baths, eru aðal kennimerki staðarins og skapa þær náttúruupplifun fyrir gesti sem er engu lík. Jarðhitinn í Urriðavatni uppgötvaðist á sínum tíma þegar ákveðnar vakir, svokallaðar Tuskuvakir, héldu sér á vatninu sama hvernig frysti. Vakirnar voru í þá daga notaðar til að þvotta á vetrum þegar erfitt var að komast í vatn og urðu þá kveikja að þjóðsögum um Tusku sem bjó í Urriðavatni og notaði vakirnar til að komast upp á yfirborðið. Þaðan kemur nafn Vök Baths. Jarðhitavatnið sem kemur úr borholum Urriðavatns lyktar nánast ekkert ólíkt jarðhitavatni á öðrum svæðum og það er auk þess svo hreint að það hefur verið vottað hæft til drykkjar. Heita vatnið stendur gestum til boða á te bar Vök Baths.

Að lokum má ekki gleyma að minnast á hreindýrin. Þessi einstöku dýr voru flutt inn frá Noregi á sínum tíma og hafa nú fest sig vel í sessi sem einkennisdýr Austurlands. Yfir sumartímann halda þau til á heiðum og fjallshlíðum en yfir vetrartímann færa þau sig á láglendi og eru þá miklar líkur á því að sjá þau í hópum nálægt byggð.

Við bjóðum þig hjartanlega velkomin/n til Egilsstaða og vonum að þú njótir dvalarinnar á Austurlandi.

X